Leikstjórinn Baldvin Z er byrjaður að taka upp nýja mynd og munu tökur standa út árið. Myndin fjallar um íslenska ofurmennið Reyni Örn Leósson, betur þekktur sem Reynir sterki en hann setti nokkur heimsmet á árunum 1972 til 1973.

Þetta verður heimildarmynd í svo til fullri lengd og er áformað að frumsýna hana um jólin 2015. Baldvin segir Reyni hafa verið goðsögn með yfirnáttúrulega krafta í lifanda lífi en sé að mestu gleymdur í dag. Hann segir sögu Reynis hafa fylgt sér frá barnsaldri og hafi hann beinlínis orðið að gera myndina.

„Þegar ég var sex ára lenti ég í rifrildi við annan strák sem mamma mín var að passa um hvor pabba okkar væri sterkari. Það kom svo í ljós að pabbi hans var Reynir sterki og ég tapaði baráttunni. Þetta lifnaði við fyrir mér þegar hann sagði mér að pabbi sinn gæti brotist út úr fangelsi, lyft bílum og slitið keðjur. Þá brjálaðist ég, fór til mömmu og sagði henni hvað hann hafði sagt um pabba sinn. Síðan að hún sagði mér að þetta væri satt þá hef ég ekki getað hætt að hugsa um manninn,“ segir Baldvin, sem er höfundur, leikstjóri og framleiðandi myndarinnar um Reyni sterka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Hér má sjá myndbrot af Reyni.