Leikurinn Kim Kardashian: Hollywood sem Glu Mobile hefur þróað skilar 700.000 dollurum í tekjur á dag, eða sem nemur rúmum 80 milljónum íslenskra króna.

Það kostar ekkert að ná í appið með leiknum en síðan er hægt að eyða raunverulegum peningum með því að kaupa föt, hárgreiðslu, og aðra hluti fyrir persónurnar í leiknum. Því meira sem persónurnar gera því ofar færast þær frá E listanum upp í A listann þar sem allt fræga og fallega fólkið í Hollywood er, en það er markmið leiksins.

Ef að sala á leiknum heldur svona áfram munu áætlaðar tekjur fyrir leikinn á fyrsta ári þess nema 200 milljónum dollara, eða sem nemur 23 milljörðum króna. Það eru svipaðar tekjur og vinsæli leikurinn Candy Crush er að hala inn árlega.

Áætlað er að einungis sjö öpp í heiminum sem eru að skila hærri tekjum í augnablikinu og er leikurinn einn af fimm vinsælustu öppum til niðurhals í app store.