Óhætt er að fullyrða að knattspyrnuliðið Manchester United sé þekktasta kennitákn Manchesterborgar. Liðið dregur að gríðarlegan fjölda fólks víðsvegar að enda talið að ekkert lið eigi eins marga stuðningsmenn á heimsvísu.

Félagið er fjárhagslegt stórveldi og hefur notið mikillar velgengni á vellinum þau 20 ár sem Sir Alex Ferguson hefur stýrt því. Það er sterk og óvenjuleg upplifun að koma á heimavöll Manchester United, Old Trafford, sem mun taka um 75.000 manns þegar núverandi stækkun er lokið en veturinn 2005/2006 var unnið að því að byggja upp hornstúkur félagsins, sitthvoru megin við norðurstúkuna. Þó völlurinn sé nú sá stærsti á Bretlandseyjum eru líkur á að hann verði stækkaður enn frekar á næstu árum enda uppselt á flesta heimaleiki félagsins. Fyrir skömmu hóf Icelandair að fljúga beint flug til Manchester tvisvar í viku og er ekki að efa að ferðum Íslendinga á "leikvang draumanna" mun fjölga á næstunni.

Rekstur félagsins hefur verið tekinn föstum tökum og óhætt að segja að umgjörð leikjanna sé sterkur þáttur í lífi Manchesterbúa. Göturnar í hverfinu í kring fyllast nokkrum tímum fyrir leiki og söluvagnar birtast á hverju götuhorni og falbjóða knattspyrnusnakk og minjagripi. Oft virðast heilu fjölskyldurnar standa að baki þessum rekstri sem er nauðsynlegur hluti af því umstangi sem fylgir leikdegi. Heimsókn á krá á leikdegi virðist einnig hluti af knattspyrnuhefð Breta. Þar standa menn þétt og spjalla, tala illa um andstæðingana og efla samkenndina fyrir átökin sem eru fram undan. Mannfræðingar myndu sjálfsagt finna margvíslegar samlíkingar með atferli stuðningsmannanna og fornra ættbálkadeilna.

Mikil öryggisgæsla

Mikil öryggisgæsla er í kringum völlinn og samskiptum stuðningsmanna liðanna haldið í lágmarki. Hundruð öryggisvarða og lögregluþjóna fylgjast með því að allt fari vel fram og eru þeir fljótir að grípa inn í ef orrustuhiti færist yfir menn. Er nú svo komið að óhætt er að mæla með skemmtun sem þessari fyrir fjölskyldufólk og þó að ekki séu allir knattspyrnumenn með í ferðinni þá er það sterk upplifun að fara á völlinn að vandalítið að mæla með því fyrir alla. Aðgengi að vellinum er gott og furðu skamman tíma tekur að finna rétt sæti. Sama á við um þegar fólk yfirgefur leikvanginn. Þrátt fyrir þetta er rétt fyrir fólk að ætla sér hálfan dag í að heimsækja leikvanginn og rétt er að kynna sér vel samgöngur til og frá vellinum því útilokað er að treysta á leigubíla þegar fólk er að koma sér í burtu. Ef menn finna hins vegar rétta gönguleiðina þá er ekki nema hálftíma gangur inn í miðbæinn aftur.

Félagið státar af flestum stuðningsmönnum á heimsvísu og Ísland er þar engin undantekning. Manchester United klúbburinn á Íslandi heldur úti kröftugu starfi og fjölda ferða á völlinn á hverju ári. Njóta félagsmenn margvíslegra afsláttarkjara og á það einnig við um miða á leiki.

Hæg byrjun

Andstæðingar Man. Utd. rifja þó gjarnan upp að félagið bar ekki þetta nafn í upphafi. Félagið var stofnað 1878 þegar nokkrir járnbrautastarfsmenn tóku sig til og stofnuðu félag undi nafninu: Newton Heath Lancashire and Yorkshire Railway and Cricket Club. Fljótlega varð félagið þekkt undir nafninu Newton Heath og fékk viðurnefnið Heathens. Það hóf keppni í efstu deild árið 1892 og fyrsti leikurinn var gegn einu elsta félagi landsins, Blackburn Rovers, sem vann 4-3. Það var Robert Donaldson sem skoraði fyrsta deildarmark Heatherns. Fyrstu árin barðist félagið við falldrauginn og ferðaðist á milli deilda. Stöðugleiki færðist þó smám saman yfir leik liðsins og 1902 stakk einn af stuðningsmönnum þess upp á því að breyta nafni félagsins. Á fundinum voru fulltrúar hinna ýmsu úthverfa bæjarins og í fyrstu var hafnað að taka upp nafnið Manchester United. Það var þó gert og árið eftir tók Ernest Mangnall yfir sem framkvæmdastjóri félagsins. Að lokum fór að ganga betur hjá félaginu og árið 1906 komst félagið upp í efstu deild og árið 1908 voru þeir krýndir Englandsmeistarar í fyrsta skipti. Framhaldið þekkja flestir.