Nýtt verðmat MP Fjárfestingarbanka á Mosaic  verðleggur félagið á 18,4 krónur á hlut en það er um 4,9% hærra en sem nemur yfirtökutilboði Tessera Holding. Fram kemur í umsögn MP að fjárhagsleg skipan fyrirtækinsins sé hentugri fyrir félag sem er ekki á hlutabréfamarkaði. Frá þessu er sagt í Viðskiptablaðinu í dag.

Verðmat MP Fjárfestingabanka er unnið til að fá óháð álit á yfirtökutilboði í Mosaic Fashions sökum þess að stjórn félagsins var vanhæf til að veita slíkt álit að hans eigin sögn. Með tilliti til sjóðstreymis og áætlana félagsins á næstu árum kemst MP að áðurgreindri niðurstöðu. Þegar eftir var leitað vildu talsmenn MP Fjárfestingarbanka ekki tjá sig vegna málsins. Formlegt yfirtökutilboð barst í Mosaic Fashions upp á 17,5 krónur á hlut þann 22. júní síðastliðinn, en það er 11,1% hærra verð en hafði verið síðustu sex mánuði, fram til 3. maí, að því er kom fram í tilkynningu til Kauphallarinnar á þeim tíma.  Gengi bréfa félagsins á markaði í gær var 17,2. Þeir sem leggja fram yfirtökutilboðið eru F-Capital ehf. (í eigu Baugs Group), Kaupthing Bank, Gnúpur fjárfestingafélag, Kevin Stanford, Karen Millen, The Millen Life Interest Settlement, Don M Limited, auk stjórnenda Mosaic Fashions, en fjárfestarnir leggja fram tilboðið undir nafninu Tessera Holding. Hópurinn ræður yfir 64,4% hlutafjár Mosaic Fashions.


Í tilkynningu sem fylgdi yfirtökutilboðinu sagði Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs Group, að hann teldi tilboðið gott fyrir hluthafa Mosaic Fashions og nefndi að tilboðið væri 28,7% hærra en þegar félagið fór í útboð fyrir tveimur árum. Tessera Holding hyggst afskrá Mosaic Fashions af markaði gangi yfirtökutilboðið í gegn.

Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu þessarar fréttar kom fram að þetta nýja verðmat hefði ekki verið kynnt hluthöfum. Það er ekki rétt. Tilkynning þar um var sett inn í fréttakerfi Kauphallarinnar 27. júlí sl. um leið og það lá fyrir. Er beðist velvirðingar á þessu.

Ritst.