Í nýrri frétt IntraFish kemur fram að sérfræðingar hollenska bankans Rabobank spá því að hráefnisverð á laxi geti fallið um allt að 20% prósent fyrir árslok. Þeir bæta þó við að aukin eftirspurn og framleiðslustýring þýði að laxaverð muni tæplega fara undir 20 norskar krónur kílóið.

Rabobank annast umfangsmikil viðskipti í matvælageiranum og er eftir því tekið þegar sérfræðingar hans senda frá sér spár um verðþróun á hráefni.

Hátt laxaverð (allt að 47-48 NOK/kg) hefur rýrt afkomu Alfesca en fyrirtækið er einn stærsti kaupandi á norskum laxi í Evrópu. Erlendar spár hafa hins vegar gert ráð fyrir lækkandi laxaverði fram á næsta ár samfara auknu framboði.

Þess má geta að nýlega var stofnaður alþjóðlegur afleiðumarkaður fyrir viðskipti með lax, Fish Pool AS. Afleiðumarkaðurinn gefur Alfesca tækifæri til að stjórna áhættuþætti þessara viðskipta mun betur.