Arion banki hefur að undanförnu leitað að kjölfestufjárfesti í Högum sem fengi að kaupa allt að 30% hlut í félaginu áður en það yrði sett á markað, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Ef ekki tekst að glæða áhuga á meðal stórra fagfjárfesta á borð við lífeyrissjóðina á hlutafjárútboði Haga kemur einnig til greina að hætta við að skrá félagið á markað og leita að erlendum kaupanda sem væri tilbúinn til að kaupa allt félagið.

Neikvæð viðbrögð við skráningu

Stjórn Arion banka tilkynnti í byrjun febrúar sl. að hún hefði ákveðið að skrá Haga á markað á árinu 2010 og selja þar með hlut bankans í fyrirtækinu. Bankinn hafði eignast 95,7% í Högum, sem er stærsta verslunarfyrirtæki landsins, eftir yfirtöku á eignarhaldsfélaginu 1998 ehf. Núverandi stjórnendur Haga buðust til að kaupa 15% hlut og þar af átti Jóhannes Jónsson, oft kenndur við Bónus, að fá að kaupa allt að 10% á sama gengi og aðrir fjárfestar. Viðbrögð almennings og fjárfesta við þessum tíðindum voru ekki jákvæð. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ef fagfjárfestar á borð við lífeyrissjóðina skipta ekki um skoðun og fari að sýna væntanlegu hlutafjárútboði Haga áhuga komi til greina að hætta við skráningu fyrirtækisins á markað og kanna aðrar leiðir til að hámarka endurheimtur bankans. Meta þurfi hvort markaðsaðstæður við skráningu geti orðið til þess að mun minna seljist af hlut bankans en verður í boði. Þá komi jafnvel til greina að selja Haga í heilu lagi og mögulega til erlends kaupanda.

Kjölfestufjárfestir með 30% hlut

Enn er þó unnið að því að félagið verði skráð á markað síðsumars eða í haust. Arion banki hefur þó verið að kanna að undanförnu þann möguleika að selja kjölfestuhlut í Högum áður en félagið verður skráð á markað, í gegnum Kauphöll Íslands. Horft er til þess að selja allt að 30% hlut í fyrirtækinu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Til greina kemur að selja hlutinn til erlendra sem og innlendra fjárfesta. Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir áreiðanleikakönnun vera í gangi nú, bæði á fjármálum fyrirtækisins og lagalegum atriðum er snúa að skráningu félagsins á markað. Erlent ráðgjafarfyrirtæki verður fengið til þess að aðstoða við skráninguna, og eftir atvikum sölu á kjölfestuhlut, þegar vinnu við áreiðanleikakönnun lýkur og ef ákveðið verður að halda áfram með skráningarferlið.

Sjá nánari umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.