Fram kemur í Morgunblaðinu að íslenska gullleitarfélagið Melmi hafi fengið framlengt leyfi til að leita að gulli og öðrum málmum á níu stöðum á landinu, en félagið hefur á undanförnum árum athugað möguleika á að vinna gull úr jarðlögum hér á landi.

Áður hafði Melmi leyfi á fjórtán stöðum en samkvæmt nýju leyfi útgefnu af Orkustofnun hefur félagið heimild til leitar á níu stöðum til ársins 2016. Þau svæði sem talin hafa verið vænlegust til leitar eru Þormóðsdalur í nágrenni Reykjavíkur og Vatnsdalur í Húnavatnssýslu.

Melmi er í eigu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Íslenskra orkurannsókna í gegnum eignarhaldsfélagið Málmís. Á það 51% í félaginu á móti erlendum fjárfestum sem hafa fjármagnað rannsóknirnar á undanförnum árum. Þá er nú unnið að því að ganga frá samningum við breskan aðila sem hyggst leggja fram hlutafé til að fjármagna rannsóknirnar á næstu árum.