Sprenging hefur orðið í leit Íslendinga að ýmsum tækjum og tólum er varða hreyfingu eftir að Covid-19 pestin tók að herja á landann. Þetta er meðal þess sem má lesa úr athugun auglýsingastofunnar Sahara á leitarvélanotkun mörlendinga eftir að vírusinn skaut upp kollinum.

Í síðasta mánuði voru merktar um 11 þúsund leitir að orðunum jóga, ketilbjöllur, þrekhjól, teygjur, heimaæfingar og Úlfarsfell. Um tæplega sexföldun var að ræða frá fyrri mánuði en sá mánuður var svipaður og árið á undan.

Fjölmargir slógu síðan inn orðinu kórónavírus eða helstu einkennum sjúkdómsins. Í febrúar og mars mátti finna 107 þúsund leitir. Skiljanlega er þar um mikla aukningu að ræða samanborið við fyrra ár en þá var leitað að orðinu tuttugu sinnum. Svipaða sögu er að segja af orðunum einangrun, skimun og sóttkví. Leitað var að þeim tæplega 21 þúsund sinnum en leitirnar voru 330 í sömu mánuðum í fyrra.

Í febrúar og mars á þessu ári varð fjórðungssamdráttur í leitum er vörðuðu orðið „atvinna“. Fjórföldun varð hins vegar þegar kom að Vinnumálastofnun og atvinnuleysisbótum.

Samhliða aukinni samveru fjölskyldunnar varð rífleg þriðjungsaukning í leit að afþreyingu fyrir fjölskylduna á borð við spil, bækur og efni á Netflix.

Að endingu er vert að nefna að færri virðast hafa hug á því að taka sér far með Icelandair eða kíkja í Bláa lónið. Leitir Íslendinga að þeim orðum drógust saman um fjórðung milli febrúar og mars 2019 og síðan sömu mánaða 2020.