*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 19. maí 2018 19:01

Leita að og finna persónuupplýsingar

Fyrirtækið Siteimprove hefur hannað lausnir til að tryggja vernd persónuupplýsinga.

Ritstjórn
Sigurður Orri Guðmundsson, forstöðumaður Íslandsmarkaðar hjá Siteimprove.
Haraldur Guðjónsson

Við hjálpum fyrirtækjum út um allan heim að sjá til þess að vefurinn þeirra sé aðgengilegur, að gæðin séu í lagi og núna er nýjasta viðbótin sem snýr að persónuverndarlöggjöfinni, að þá finnum við allar persónuupplýsingar sem birtast á tilteknum vef,“ segir Sigurður Orri Guðmundsson, forstöðumaður Íslandsmarkaðar hjá fyrirtækinu Siteimprove.

Sigurður Orri segir að þjónusta fyrirtækisins skipti miklu máli nú í ljósi þess að stutt sé í að nýjar persónuverndarreglur taki gildi. „Löggjöfin nær til allra fyrirtækja, opinberra stofnana og einkafyrirtækja, þannig að það eru náttúrulega allir þarna undir. Það er réttur einstaklinga að fá að vita hvaða upplýsingar er verið að geyma um okkur. En hvernig geta fyrirtæki og stofnanir lifað undir þeim kröfum ef þau geta ekki fundið gögnin? Það er hins vegar sérstaklega mikilvægt fyrir bankana, tryggingafélög, opinberar stofnanir og aðra sem geyma viðkvæmar upplýsingar, að hafa öll sín mál í lagi. Það er náttúrulega stigsmunur á fyrirtækjum sem búa yfir fjárhagsupplýsingum eða heilbrigðisupplýsingum og þeim sem hafa e.t.v. upplýsingar um hvort maður á kött eða ekki,“ segir hann.

Sigurður Orri segir jafnframt að einfalt sé að nýta sér þjónustuna. „Við erum með forritið og hugbúnaðinn en fólk fer svo bara sjálft inn og notar það. Við erum ekki þannig séð í ráðgjafastörfum þó að við séum alltaf tilbúin að hjálpa ef það kemur eitthvað upp. Annars virkar þetta þannig að við skönnum vefinn og fólk fær aðgang að upplýsingunum um hvað sé að vefnum.

Það er það stóra við persónuverndarlöggjöfina að það hefur enginn getað séð til þess að finna allar þessar persónuupplýsingar. Við ákváðum að reyna og okkur hefur tekist það, núna finnum við allar kennitölur, öll símanúmer, öll nöfn og öll netföng,“ segir hann.

Nýlega var greint frá því að þrjú íslensk sveitarfélög hefðu birt viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar á vefjum sínum í tengslum við opnun bókhalds þeirra. Spurður hvort hin nýja þjónusta fyrirtækisins hefði getað orðið til þess hægt hefði verið að grípa fyrr inn í og fjarlægja upplýsingarnar af vefjum sveitarfélaganna svarar Sigurður Orri játandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.