Þrír staðir koma til greina fyrir veitingastað á Þingvöllum sem komi í stað Valhallar sem brann þar árið 2009. Lítill veitingaskáli hefur verið á staðnum. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir í samtali við Morgunblaðið í dag það koma í ljós á seinni hluta ársins hvar ný Valhöll muni rísa.

Hann segir gamla Valhallarreitinn fyrsta möguleika en auk þess komi til greina að byggja á efri völlunum við furulundinn fyrir neðan Öxarárfoss auk þess sem Hakið á Almannagjárbarmi sé til skoðunar.

Þegar hefur verið gerð verkfræðileg úttekt á verkinu. Ólafur bætir við að enn sé beðið eftir því að fá fleiri sjónarhorn, bæði fagurfræðileg og söguleg. „Verkfræðilega úttektin sýndi að hentugast væri að byggja á Hakinu,“ segir hann í samtali við blaðið. Þar er m.a. fyrir bílastæði og rafmagn. Meira inngrip væri að byggja á gamla Valhallarstaðinn sem er botnlangi og myndi bíla- og rútuumferð taka sinn toll í sjónrænu umhverfi staðarins.