Einstaklingar skrá sig í vaxandi mæli til heimilis í útlöndum til þess að komast í hagstæðara skattaumhverfi. Þetta kom fram í máli Ragnars Árnasonar, prófessors í hagfræði við HÍ, á blaðamannafundi í gær þar sem hann og Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri Aska Capital, afhentu Pétri Blöndal, formanni efnahags- og skattanefndar Alþingis, fyrsta eintak nýútkominnar bókar í ritröð fræðirita hjá RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál. Bókin nefnist Cutting Taxes to Increase Prosperity (Skattalækkanir til kjarabóta). Ritstjórar bókarinnar eru Hannes H. Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, og Tryggvi Þór Herbertsson.

„Fyrirtæki og jafnvel einstaklingar færa skattfang sitt milli landa með tilliti til skattaumhverfis. Þetta hefur færst í aukana og mun örugglega aukast enn frekar í framtíðinni. Og allt tengist þetta skattasamkeppni milli landa,“ segir Ragnar. Hann segir að háir tekjuskattar ýti undir þessa þróun. „Ríkið fengi meiri tekjur til lengri tíma litið með mun lægri skattheimtu á alla, ekki aðeins fyrirtæki. Það er óheppilegt að hafa mismunandi tekjuskatta fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Ég er sannfærður um það að heildartekjur af tekjuskatti myndu aukast ef hlutfallið til ríkisins yrði fært niður úr rúmum 24% í 10-15%,“ segir Ragnar.