Norðurslóðaáætlunin, Northern Perephery Programme, hefur samþykkt að veita undirbúningsstyrk samstarfsverkefni Íslendinga og annarra norrænna þjóða um að leita lausna á vanda dreifbýlisverslunar á Norðurslóðum. Gerð verður greining á mismunandi tegundum smásöluverslana í dreifbýli og reynt að finna þá þættir sem taldir eru skipta mestu máli um velgengni þeirra. Rannsóknarsetur verslunarinnar við Háskólann á Bifröst stjórnar verkefninu en mótun og undirbúningur þess var unninn í samstarfi við Byggðastofnun

NORA, Norræna atlantssamstarfið, styrkir einnig verkefnið.

Verkefni til þriggja ára

Fyrsti hluti verkefnisins verður unninn á fjórum mánuðum og felur í sér þarfagreiningu og fullmótaða verkáætlun fyrir meginverkefnið. Í fyrsta áfanga verkefnisins taka þátt, auk Íslendinga; Finnar, Norðmenn og Færeyingar. Þá verður unnið að þátttöku fleiri þjóða og lögð sérstök áhersla á þátttöku Grænlendinga og Skota. Gert er ráð fyrir að meginverkefnið muni taka þrjú ár. Þeir aðilar sem koma að verkefninu frá þáttökuþjóðunum eru háskólastofnanir, byggðaþróunarstofur líkt og Byggðastofnun og aðrir sérfræðingar á sviði verslunar og byggðaþróunar. Þá verður unnið í nánu samstarfi við verslanir, atvinnuþróunarfélög og aðra hagsmunaaðila.