Deutsche Bank AG leitar nú leiða til þess að endurheimta traust fjárfesta. Bankinn hefur verið í miklum erfiðleikum og hefur hlutabréfaverð bankans fallið um nær 53% á seinustu 365 dögum og hefur það aldrei verið lægra.

Samkvæmt fréttaveitu Bloomberg eru stjórnendur félagsins að leita nýrra leiða til þess að endurheimta traust meðal fjárfesta. John Cray, forstjóri bankans, hefur til að mynda talað fyrir breytingum á umbunarkerfi bankans.

Hingað til hafa starfsmenn fengið bónusgreiðslur í formi reiðufjárs, aftur á móti er bankinn samkvæmt heimildum Bloomberg að íhuga að gefa frekar hlutabréf.

Árið 2015 greiddi bankinn starfsmönnum sínum 2,4 milljarða evra í bónusa. Cray, sem tók við bankanum í fyrra hefur hætt arðgreiðslum, lækkað bónusgreiðslur, selt áhættusamar eignir og fryst ráðningar. Þær aðgerðir hafa þó haft lítil áhrif á viðsnúning bankans.

Óvíst er hvernig bankinn muni endurheimta traust sitt og hvort að hann þurfi í náinni framtíð að leita sér aðstoðar.