Norðurlandaráðsþing verður sett í Kaupmannahöfn 31. október, þar munu stjórnmálamenn frá öllum ríkjum Norðurlanda og öllum flokkum leita skýringa á efnahagslegri velgengni Norðurlanda á tímum alþjóðavæðingar, segir í tilkynningu.

Einnig verður rætt um jafnvægið milli samfélagsaðgerða og markaðskrafta í norrænu þjóðfélagi, segir í tilkynningunni.

Að loknum þessum umræðum heldur þingið áfram með þingumræðum með þátttöku forsætisráðherra Norðurlanda. Miðvikudaginn 1. nóvember flytja utanríkis- og varnarmálaráðherrar Norðurlanda ræður.

Baráttan gegn mansali verður einnig á dagskrá, sem og skýrsla um áfengisstefnu og umræður um umönnun geðfatlaðra.

Loftslagsbreytingar verða ræddar og einnig óhollar matarvenjur Norðurlandabúa og hvað gera megi til að bæta matarvenjur. Rætt verður um norræna tungumálastefnu og ný norræn tungumálayfirlýsing verður samþykkt.

Þeir sem hljóta verðlaun Norðurlandaráðs koma til þingsins. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn miðvikudagskvöldið 1. nóvember í Tívolí.

Norðurlandaráðsþing er haldið árlega og er helsti viðburðurinn í norrænu samstarfi. Að þessu sinni verður þingið haldið í Kaupmannahöfn. Um eitt hundrað þingmenn og ráðherrar frá norrænu ríkjunum fimm og sjálfstjórnarsvæðunum þremur ræða þar mikilvæg norræn málefni við ráðherra frá norrænu ríkjunum og sjálfstjórnarsvæðunum. Auk þess taka hundruð gesta frá grannsvæðum Norðurlanda og öðrum hlutum heimsins þátt í þinginu.