Það sem við viljum gera er að leita aftur í einfaldleikann og bjóða upp á hreinar og heilsusamlegar afurðir með hráefni sem fólk skilur hver eru,“ segir Jón Örvar annar stofnenda heilsu- og matvælafyrirtækisins Bone & Marrow, sem tekur nú þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík í sumar. Meðstofnandi Jóns er Björk Harðardóttir.

Fyrirtækið er til að mynda að þróa nýja vöru um þessar mundir sem þau Jón Örvar og og Björk kalla lambabeinaseyði og ætla að koma á markað núna í haust. „Þetta er seyði úr íslenskum lömbum sem er verkað á ákveðinn hátt. Þetta er svo blandað við íslenskt grænmeti og kryddjurtir. Varan er hrein náttúruafurð, við hér á Íslandi erum með frábærar lambaafurðir og gott grænmeti,“ segir Jón Örvar.

Vilja kynna fleiri vörur í framtíðinni

Jón Örvar útskýrir að fólk hafi neytt beinaseyðis í gegnum tíðina um heim allan. „Þetta er ein af elstu heitu máltíðum mannsins. Við erum að koma með það aftur inn í nútímann,“ segir hann. Jón Örvar bætir við að drykkurinn sé fínt heitt millimál og að hægt sé að drekka beinaseyðið á svipaðan hátt og við drekkum kaffi eða te. Stefnan hjá fyrirtækinu er að byrja á þessari einu vöru og kynna fleiri vörur til sögunnar á næsta ári.

Spurður út í það hvernig hugmyndin kviknaði segir Jón Örvar að þau Björk hafi kynnst í Landbúnaðarháskólanum. „Þar áttum við margar góðar umræður um matvæli, umhverfismál og landbúnað náttúrulega. Í því umhverfi vorum við að leita að heilbrigðum og heilsusamlegum mat. Þá fórum við að horfa aftur í tímann og spurðum okkur: Hvað var fólk að gera áður en iðnvæðing á matvælaframleiðslu átti sér stað og matur var ekki helunninn. Þá enduðum við aftur í þessum einfaldleika: fá hráefni og verka það á ákveðinn hátt. Þetta fæði, eins og beinaseyði, er eitthvað sem hefur fylgt manninum í gegnum aldirnar,“ bætir hann við.

Vaxtartækifæri í íslenskri matvælaframleiðslu

Að mati Jóns eru mýmörg spennandi og vannýtt vaxtartækifæri í íslenskri matarframleiðslu. Vísar hann meðal annars til tækifæri í fullnýtingu afurða líkt og fyrirtæki tengd sjávarútvegi hafa tekið sér fyrir hendur með íslenska þorskinn, þar sé hver fruma nýtt. Þessi þróun sé þó á byrjunarstigi í landbúnaðnum en Jón Örvar telur að það sé kominn tími á að ganga enn lengra í þessum efnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .