Hópur viðskiptavina fjarskiptafyrirtækisins Vodafone íhugar að leita réttar síns vegna leka á persónuupplýsingum þeirra á netið eftir árás tölvuhakkara á heimasíðu fyrirtækisins í lok nóvember. Hluti þeirra viðskiptavina hefur leitað til lögmannsstofunnar Réttar sem myndi annast málin fyrir þeirra hönd.

Þessir viðskiptavinir Vodafone telja sig hafa orðið fyrir fjárhagslegum skaða og eða tilfinningalegum miska vegna þess að persónuleg gögn þeirra voru birt á netinu í kjölfar árásarinnar. Björg Valgeirsdóttir, lögmaður hjá Rétti, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið í dag . Hún segir jafnframt að í athugun sé hvernig farið verði með einstök mál, og það muni liggja fyrir innan skamms.

Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone, segir í skriflegu svari til Fréttablaðsins að nokkrar beiðnir um viðræður hafi borist fyrirtækinu varðandi skaðabætur vegna lekans. Lögmenn fyrirtækisins skoði þessi mál „Beiðnirnar eru þó ekki margar og flestir óska einfaldlega eftir skýringum og upplýsingum," segir Hrannar í samtali við blaðið.