Þegar fólk hugsar til brimbrettaiðkunar hugsar það gjarnan til pálmatrjáa, hvítra stranda og sólar og blíðu. Myrkur, kuldi, hvassir hafvindar og síbreytileg veðrátta eru því eiginleikar sem gera Ísland að ómögulegum stað fyrir brimbrettaiðkun í hugum flestra. Ævintýra- og afþreyingarfyrirtækið Arctic Surfers er þó annarrar skoðunar.

„Aðstæður til brimbrettaiðkunar á Íslandi geta verið eins og þær gerast bestar í heiminum. Á góðum degi er hægt að bruna á öldum í heimsklassa um allt land, allt árið um kring,“ segir Ingólfur Már Olsen, leiðsögumaður, framkvæmdastjóri og meðeigandi Arctic Surfers. Fyrirtækið er eitt þeirra tíu sem taka þátt í Startup Tourism viðskiptahraðlinum í ár.

Arctic Surfers er sérhæft ferðaþjónustufyrirtæki fyrir brim, róðra- og snjóbrettaiðkendur í ævintýraleit. „Við sérhæfum okkur í brimbrettaferðum fyrir meðalvana og allt upp í atvinnumenn á öllum aldri í litlum fjögurra til sex manna hópum, en kúnnarnir koma alls staðar að úr heiminum. Við útvegum bretti, galla og aukahluti og skipuleggjum hverja ferð eftir getu þátttakenda. Í hnotskurn leitum við uppi bestu öldurnar á Íslandi og blöndum því saman við aðra afþreyingu á borð við útivist, tónlist, menningu og mat. Upplifunin gengur út á allt ferðalagið, ekki bara brunið,“ segir Ingólfur.

Orðnir reyndir veðurfræðingar

Leitin að öldu dagsins byggir á áralangri reynslu og þekkingu starfsfólks Arctic Surfers, sem og veðurspám.

„Áður en ég stofnaði Arctic Surfers í kringum 2012 hafði ég starfað sem leiðsögumaður í áratug. Þá hef ég stundað brimbretti og snjó­bretti á Íslandi í um tuttugu ár. Við erum allir færir leiðsögumenn og sækjum okkur sífellt fleiri réttindi og meiri reynslu,“ segir Ingólfur.

„Þetta er miklu flóknara en að keyra fólk á einhverjar strendur. Það þarf að spá í veðrið og þekkja aðstæður. Það liggur við að ég sé orðinn meiri veðurfræðingur heldur en íþróttamaður!“

Þjónusta Arctic Surfers nýtur mikilla vinsælda samkvæmt vef TripAdvisor. Af alls 70 umsögnum gefa 69 hæstu mögulega einkunn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .