Húsleit var framkvæmd hjá Landsvaka, rekstarfélagi sjóða Landsbankans, í morgun vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á ætluðum brotum sem framin voru í bankanum fyrir hrun. Enginn var handtekinn en gögn voru haldlögð og annarra upplýsinga aflað. Stefán Héðinn Stefánsson, aðstoðarforstjóri Saga fjárfestingabanka, var handtekinn í tengslum við rannsóknina í morgun. Hann var framkvæmdastjóri á eignastýringarsviði Landsbankans og stjórnarformaður Landsvaka fyrir hrun.

Rannsókn sérstaks saksóknara snýst meðal annars um kaup á skuldabréfum úr sjóðum Landsvaka, meðal annars peningamarkaðssjóði, þann 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að rannsóknin beinist að kaupum á bréfum Landsbankans sjálfs og Straums úr sjóðum bankans. Feðgarnir Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson voru stærstu eigendur bæði Landsbankans og Straums fyrir bankahrun.

Til rannsóknar er grunur um meint brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum landsbankans, nánar tiltekið skilasvik. Um er að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns.