Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) leitar nú logandi ljósi að nýjum þjálfara fyrir A-landslið karla. Ólafur Jóhannesson hættir með liðið um áramót og nýr maður tekur við stjórnartaumunum. Enn er óljóst hver mun taka við liðinu en margir koma til greina, að sögn Geirs Þorsteinssonar, formanns stjórnar KSÍ. Eins og fram kom í viðtali við Geir í Viðskiptablaðinu í síðustu viku er KSÍ með alla anga úti, bæði á erlendum vettvangi og innlendum.

Keane og Lars Lagerbäck

Töluverður spenningur hefur myndast hjá þjóðinni vegna landsliðsþjálfarastöðunnar og þá hver mun taka við henni. Nokkrir hafa verið nefndir sem líklegir þjálfarar. Þeirra á meðal er írska goðsögnin Roy Keane, sem um árabil var einhver allra besti varnarmiðjumaður Evrópu. Hann gerði garðinn frægan á tólf ára sigursælum ferli hjá Manchester United. Hafði orð á sér fyrir að vera einfaldlega harðari en aðrir.

Breska blaðið Daily Mail greindi frá því sl. þriðjudag að KSÍ hefði boðið Roy Keane 75 milljónir króna, 400 þúsund pund, í árstekjur fyrir að taka við landsliðinu. Það er hærri upphæð en sem nemur rekstrarhagnaði KSÍ í fyrra, en hann var samkvæmt ársreikningi sambandsins 67 milljónir króna. Handbært fé sambandsins var hins vegar um 320 milljónir króna og eigið fé neikvætt um tæplega 220 milljónir. Það eru því til fjármunir fyrir þessum háu launum en líklega myndi stjórnin þurfa að leita stuðnings hjá aðildarfélögum sambandsins áður en til þess kæmi að samþykkja það. Alls óvíst er að sá stuðningur fáist.

Annar sem nefndur hefur verið sem líklegur þjálfari er Svíinn Lars Lagerbäck, sem stýrt hefur landsliði Svíþjóðar í lokakeppnum EM og HM og einnig liði Nígeríu. Hann hefur í það minnsta mikla reynslu.

Íslendingar einnig líklegir

Þeir sem helst hafa verið nefndir sem mögulegir landsliðsþjálfarar hér á landi eru Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, Guðjón Þórðarson, þjálfari BÍ/ Bolungarvíkur, og Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Sá síðastnefndi hefur ekki sýnt því áhuga að taka við landsliðinu en Willum og Guðjón, sem stýrði liðinu á árum áður, eru báðir áhugasamir um að ræða við stjórn KSÍ að því er þeir segja báðir. Valkostirnir sem togast á eru því annars vegar að ráða erlenda þjálfara með reynslu, fyrir umtalsverða fjárhæð, eða íslenskan þjálfara sem þekkir vel til íslensks fótbolta, fyrir lægri upphæð.