Bankasýsla ríkisins mun í vikunni auglýsa eftir alþjóðlegum og innlendum ráðgjöfum á Evrópska efnahagssvæðinu í samvinnu við Ríkiskaup og Íslandsbanka hf. vegna sölu á 25-35% hlut ríkisins í Íslandsbanka. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti á föstudaginn að hefja ætti söluferlið eftir umsögn þingnefnda og Seðlabankans, en Bankasýslan lagði í desember til að söluferlið yrði hafið. Bankasýslunni var einnig falið af Bjarna að kanna möguleika á arðgreiðslu af hálfu bankans fyrir útboð á hlutabréfum í honum.

Bankasýslan fagnar ákvörðun ráðherra og ábendingum hans að því er fram kemur á vef Bankasýslunnar. „Endurspegla þær markmið stofnunarinnar um að stuðla að dreifðu eignarhaldi, öflugum fjármálamarkaði, virkri og eðlilegri samkeppni, skilvirkni, gagnsæi og virkri upplýsingamiðlun,“ segir á vef bankans.

Hundruð milljóna kostnaður af skráningu

Kostnaðurinn af skráningu bankans og sölu hlutabréfa verður að líkindum nokkur. Í stöðuskýrslu sem Bankasýslan birti í mars á síðasta ári vegna sölu á hlutum í Íslandsbanka var gróflega áætlað að hlutur ríkisins í kostnaði vegna sölu á um 20% hlut í bankanum gæti numið um 500 milljónum króna sem gæti orðið um 1,8% af söluandvirðinu.

Stefnt er að því að skrá bankann á markað á fyrri helmingi ársins samhliða sölu hlutanna, en ríkið mun eiga þau hlutabréf í bankanum sem ekki verða seld og því áfram meirihlutaeigandi bankans.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Bankasýsla ríkisins mun eiga samstarf um upplýsingagjöf til nefnda Alþingis um framgang sölunnar á næstunni.  Eftir ráðningu ráðgjafa mun áreiðanleikakönnun hefjast sem og gerð útboðslýsingar, sem verður yfirfarin af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands, og kynningar fyrir væntanlega fjárfesta. Bankasýslan segir að ekki sé unnt að segja nákvæmlega hvenær sölumeðferð ljúki „þar sem ferlið er umfangsmikið og háð ýmsum utanaðkomandi og breytilegum þáttum,“ en áður var vonast til að ferlinu yrði lokið í maí.