„Stofnendur byggingafélagsins eru flestir látnir og því erum við að leita að erfingjunum,“ segir Jóhann Ólafsson, endurskoðandi í Örlygshöfn við sunnanverðan Patreksfjörð á Vestfjörðum. Hann auglýsir í Lögbirtingablaðinu í dag eftir eigendur hlutafjár Byggingafélagsins Hafnar hf, nú Höfn ehf, sem stofnað var árið 1975 af einstaklingum og félögum í þáverandi Rauðasandshreppi.

Jóhann segir byggingafélagið hafa verið virkt á sínum tíma, þ.e. um miðjan áttunda áratug síðustu aldar þegar íbúarnir voru mun fleiri en nú. Fyrirtækið byggði bæði íbúðarhús og útihús fyrir bændur í Rauðasandshreppi. Starfsemin tók að dala í kringum 1980 samhliða því sem íbúum fækkaði. Þeir voru á sínum tíma um 200 en eru nú innan við 50, að mati Jóhanns. Engin starfsemi hefur verið í byggingafélaginu um árabil eða síðan um 1980. Eina eignin sem stendur eftir er verkstæðishús í Örlygshöfn sem leigt hefur verið út til verktaka. Nú er stefnt á að reyna að selja það. Fáist eitthvað fyrir húsið á að afhenda söluandvirðið hluthöfum félagsins sem eru erfingjar stofnenda.

Jóhann segist hafa unnið að því að leita erfingja stofnenda byggingafélagsins annað slagið síðastliðin eitt og hálft ár. Það hefur engan árangur borið. Hann telur hlutabréfin hafa verið gefin út á pappír ári eftir stofnun þess árið 1975.

Þeir sem telja sig eigendur hlutafjár, eða vita um eigendur þess, geta haft samband við Jóhann í síma 894-3899 fyrir 1. febrúar næstkomandi eða í netfanginu [email protected]