Baidu er líklega það fyrirtæki í Kína sem hefur notið hvað mest góðs af því að starfsemi Google er nær alfarið bönnuð í landinu. Líkt og lesendur hafa líklega áttað sig á er Baidu leitarvélafyrirtæki og var stofnað árið 2000 af Robin Li sem er enn í dag forstjóri þess. Vöxtur fyrirtækisins var heldur hægur fyrstu árin en árið 2010 námu tekjur fyrirtækisins um 1,1 milljarði dollara.

Það ár markaði hins vegar vatnaskil fyrir Baidu en þá hóf Google að draga úr starfsemi sinni í landinu vegna mikillar ritskoðunar stjórnvalda. Við það tók Baidu á flug og náðu tekjur þess 12 mánaða hámarki í lok þriðja ársfjórðungs 2018 þegar þær námu um 15,5 milljörðum dollara. Á þeim tíma náði hagnaður fyrirtækisins einnig 12 mánaða hámarki þegar hann nam um 4,6 milljörðum dollara.

Fyrirtækið var skráð á hlutabréfamarkað árið 2005 og sumarið 2018 nam markaðsvirði þess um 100 milljörðum dollara en hafði í byrjun desember 2019 lækkað niður í rúmlega 40 milljarða. Þrátt fyrir að vera stærsta leitarvélin í Kína hefur fyrirtækið fundið fyrir samkeppni frá Alibaba, WeChat og næststærstu leitarvél landsins, Sogou.

Baidu skilaði tapi á síðustu 12 mánuðum til loka september 2019 og var það í fyrsta skipti sem það gerðist frá skráningu. Baidu er yfirleitt kallað hið kínverska Google sem kemur einfaldlega til af því að starfsemi þess er mjög lík bandaríska risanum en tekjur þess byggjast fyrst og fremst á auglýsingum. Þrátt fyrir aukna samkeppni er Baidu næststærsta leitarvél í heimi með 75% markaðshlutdeild í Kína og auk þess fjórða mest sótta vefsíða heims.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út.