© Aðsend mynd (AÐSEND)

Vanessa Fox, einn þekktasti sérfræðingur á sviði leitarvéla á netinu, er væntanleg til landsins en hún verður með vinnustofu á vegum TM Software í Hörpu í heilan dag 11. október næstkomandi.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja, móðurfélagi TM Software, að Vanessa Fox vann áður hjá Google, meðal annars við þróun Webmaster Central, sem er ein mikilvægasta þjónusta Google fyrir vefstjóra til að fylgjast með árangri og stöðu vefsíðna á leitarvélum. Hún hefur ennfremur haldið fjölda fyrirlestra og vinnustofa um heim allan og gefið út bókina Marketing in the Age of Google.

Vanessa er stofnandi Nine by Blue sem þróað hefur hugbúnað til að aðstoða vefstjóra við að greina og bæta efni vefsíðna. Vanessa er jafnframt einn af ritstjórum og aðalbloggurum á netsíðunni Search Engine Land . Hún er því sannkallaður hvalreki fyrir þá sem vinna að markaðssetningu, uppsetningu og efnisvinnu vefsíðna.