Það er ekki hægt að segja að fyrri helmingur ársins hafi verið hagstæður hlutabréfamörkuðum heimsins. Fall MSCI-heimsvísitölunnar, sem tekur til þróunar á hlutabréfamörkuðum í 23 ríkjum, fyrstu sex mánuði ársins hefur ekki verið meira frá árinu 1982. Það sama gildir um gengi flestra annarra hlutabréfavísitalna og fátt er í kortunum sem gefur til kynna að hin vályndu veður á fjármálamörkuðum séu í þann mund að lægja.

Allt frá því að lánsfjárkreppan hófst í fyrra hafa væntingar um að hið versta væri afstaðið vaknað með reglulegu millibili. Enn sem komið er hefur engin innistæða reynst vera fyrir slíkum væntingum. Ýmsir mælikvarðar streitu á fjármálamörkuðum eru ennþá háir: Skuldatryggingaálag fyrirtækja er ennþá hátt og er það til marks um að markaðurinn geri ráð fyrir fjölgun gjaldþrota. VIX-vísitalan, sem mælir flökt á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum, hefur farið hækkandi að undanförnu þó svo að hún sé ekki í þeim hæðum sem fór í marsmánuði um það leyti sem fjárfestingabankinn Bear Stearns riðaði til falls.

Þrjú bjarndýrahlaup

Frá því að hrunið varð á markaðnum með bandarísk undirmálslán hafa birnir og griðungar tekist á á fjármálamörkuðum. Hlutabréfavísitölur hafa almennt verið á niðurleið. Viðsnúningur á þeirri þróun hefur til þess reynst vera tímabundinn og flokkast því sem bjarndýrahlaup (e. bear market rally) en svo kallast tímabundið gengisskot á hlutabréfamörkuðum sem eru í niðursveiflu.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .