Leiðtogafundur Eystrasaltsráðsins verður haldinn í Reykjavík þann 8. júní næstkomandi með þátttöku ellefu aðildarríkja ráðsins, auk Evrópusambandsins, segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra mun stýra fundinum.

?Leiðtogafundurinn markar lokin á formennsku Íslands í Eystrasaltsráðinu sem hófst þann 1. júlí 2005. Í formennskutíð sinni hefur Ísland meðal annars lagt áherslu á samvinnu á sviði orku- og umhverfismála, sem og nánari samvinnu við önnur svæðisbundin samtök," segir í tilkynningunni.

Eystrasaltsráðið var stofnað árið 1992 með aðild tíu ríkja - Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rússlands, Þýskalands og Póllands - auk Evrópusambandsins, en Ísland gerðist aðili árið 1995.

Meginhlutverk ráðsins er að stuðla að stjórnmálalegum og efnahagslegum stöðugleika í norðausturhluta Evrópu, meðal annars með aðstoð við þróun og uppbyggingu lýðræðis, verndun mannréttinda og bættu viðskiptaumhverfi til eflingar frjálsum viðskiptum.