Leiðtogafundur tuttugu iðnríkja verður haldinn í Bandaríkjunum þann 15. nóvember næstkomandi.

Frá þessu er greint á fréttavef Reuters en George W. Bush, bandaríkjaforseti verður gestgjafi fundarins sem vonast er til að verði sá fyrsti af nokkrum fundum.

Samkvæmt tilkynningu frá Hvíta húsinu verður umræðuefnið, eins og gefur að skilja, núverandi lausafjárkrísa og mögulegar lausnir við henni.

„Leiðtogar þjóðanna munu fara yfir mögulegar aðgerðir til að mæta þeim vandamálum sem að okkur steðja,“ sagði Dana Perino, fjölmiðafulltrúi Hvíta hússins við fjölmiðla í dag.

Þá bætti hún því við að einnig yrðu rætt um möguleika á samhæfingu reglugerða til að koma í veg fyrir að það hrun sem orðið hefur geti endurtekið sig.

Framhaldsfundir leiðtoganna munu síðan fara í það að lista niður verklag og frekari smáatriði sem snúa að aðgerðum ríkjanna.

Þá mun sigurvegari forsetakosninganna í Bandaríkjunum, sem fram fara í byrjun nóvember, einnig sitja fundinn.

Framkvæmdastjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, forseta Alþjóðabankans og aðalritara Sameinuðu Þjóðanna hefur einnig verið boðið á fundinn.