Angela Merkel kanslari Þýskalands og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti vilja setja á alþjóðlegan bankaskatt. Þau hyggjast senda sameiginlegt bréf til leiðtoga G20 ríkjanna fyrir næsta leiðtogafund sem haldinn verður síðar í þessum mánuði.

Hugmynd Merkel og Sarkozy er að skattgreiðslur fari í sjóð sem hægt sé að grípa til þegar erfiðleikar á fjármálamörkuðum steðja að. Þannig sé hægt að koma í veg fyrir að fjármálakrísur framtíðarinnar lendi á skattgreiðendum. Nokkur fjöldi leiðtoga heimsins styðja tillögurnar en ekki ríkir samstaða um málið. Eitt helsta áhyggjuefni þeirra sem eru mótfallnir bankaskatti er að slíkir skattar myndu veikja samkeppnisstöðu landsins gagnvart þeim löndum sem ekki skattleggja banka sérstaklega.

Þórunn Sveinbjarnadóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar, sagði í gær á eldhúsdegi Alþingis að Samfylkingin vildi leggja á bankaskatt til að mæta halla á ríkissjóði.