Leiðtogar evruríkjanna 15 funda nú í París um sameiginlega stefnu til að berjast gegn fjármálakreppunni.

Á fundinum verður áætlun G7 ríkjanna um aðgerðir rædd og meira kjöt sett á beinin á henni, samkvæmt frétt BBC.

Áætlun G7 ríkjanna kveður á um að koma lánsfjármagni á hreyfingu og nota öll tæki sem til eru til að aðstoða fjármálastofnanir.

Fyrir fund evruríkjanna höfðu Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, og Angela Merkel, kanslari þýskalands, þegar hist og rætt um sameiginlegar aðgerðir landanna til að hafa hemil á kreppunni. Sarkozy fundaði einnig með Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, sem á ekki sæti á fundinum sem fram fer í dag þar sem Bretland hefur ekki tekið upp evru.