Leiðtogi OPEC-ríkjanna, Chakib Khelil, segir að minnka verði olíuframleiðslu eigi að nást stöðugt olíuverð. Hann segir að markaðir bíði eftir niðurskurði í framleiðslu og að í því tilliti muni Sádi-Arabía gegna lykilhlutverki.

Rússar hafa sagst ætla að lækka tolla á olíuútflutning til að hjálpa bransanum að takast á við lækkandi olíuverð.

Ummæli Khelil koma í kjölfar gagnrýni Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, á að OPEC-ríkin dragi saman olíuframleiðslu.

OPEC ákvað á fundi sínum í Vín 24. október sl. að minnka olíuframleiðslu um 5%, þ.e. 1,5 milljónir olíutunna á dag, til að stöðva lækkun olíuverðs. Vonast er til að verð nái stöðugleika á milli 70-80 Bandaríkjadölum á tunnu.

Rússar ætla hins vegar ekki að taka þátt í aðgerðum OPEC-ríkjanna til að hækka olíuverð, en segjast þó vilja stunda nánara samstarf með OPEC og hafa meiri áhrif á verðmyndun á olíumarkaði.

BBC greindi frá.