Fjármálaeftirlitið hefur falið efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að fylgja eftir málinu í kringum leka og birtingu lánabóka Kaupþings. Þetta upplýsir Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME, í samtali við Viðskiptablaðið.

Málið varðar við brot á þagnarskylduákvæðum laga um fjármálafyrirtæki.

Upplýsingum úr lánabókunum hefur verið lekið til fjölmiðla fyrr á árinu og í síðustu viku var skýrsla frá 25. september 2008 um helstu skuldunauta Kaupþings birt á Wikileaks.org.

Gunnar segir í samtali við Viðskiptablaðið að FME hafi upphaflega kannað hvort hægt væri að koma í veg fyrir birtingu skýrslunnar en það hafi ekki verið hægt; skýrslan sé birt á netþjóni sem sé utan lögsögu landsins.

Spurður hvort FME hafi reynt að finna út úr því hver lak skýrslunni segir hann að erfitt sé að finna út úr því. Á hinn bóginn sé búið að vísa málinu til efnahagsbrotadeildarinnar.