Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra telur að skoða eigi möguleikann á því að færa málefni dómsmála úr innanríkisráðuneytinu. Það fari ekkert sérstaklega vel að þau heyri undir stórt fagráðuneyti eins og innanríkisráðuneytið. Þetta sagði Hann Birna í hádegisfréttum RÚV. Hanna Birna sagði að lekamálið hefði verið erfitt fyrir ráðuneytið og sig, bæði persónulega og sem stjórnmálamann.

Eins og kunnugt er leysti ráðherrann Gísla Frey Valdórsson, aðstoðarmann sinn, frá störfum fyrir helgi vegna þess að Gísli Freyr verður ákærður í lekamálinu svokallaða. Hanna Birna hefur jafnframt óskað eftir því að málefni dómsmála verði flutt undir annan ráðherra á meðan dómsmálið er til meðferðar.

„Síðan held ég að við eigum að hafa hugrekki í framhaldi af þessu til að ræða það og þetta mál á að kenna okkur eitthvað," sagði Hanna Birna í viðtali á RÚV.

„Kannski kennir þetta okkur það að dómsmál eiga ekkert sérstaklega vel heima undir nokkru fagráðuneyti. Kannski eiga dómsmálin þannig sess í hugum okkar og þannig virðingu eigum við að bera fyrir þeim í ljósi þrískiptingar ríkisvaldsins. Ég var hugsi þegar ráðuneytið var gert svona stórt og dómsmálin tekin þarna undir. Ég held að við eigum að hafa hugrekki til að hugsa það hvort þessum hlutum verði betur fyrirkomið í framtíðinni."