Jón Snorri Snorrason hefur ákveðið að stefna ritstjóra og fréttastjóra DV fyrir að „vega með grófum ærumeiðingum að starfsheiðri Jóns Snorra Snorrasonar lektors við viðskiptafræðideild HÍ. Krafist verður 5 milljón króna miskabóta“, að því er segir í tilkynningu.

Í tilkynningunni segir:

„Á forsíðu DV síðastliðinn mánudag var því ranglega haldið fram að Jón Snorri sætti rannsókn lögreglu í tengslum við gjaldþrot Sigurplasts, en Jón var þar stjórnarformaður. Ríkislögreglustjóri hefur staðfest að engin rannsókn standi yfir á hendur Jóni Snorra.

Umfjöllun DV um Jón Snorra var sett fram með afar meinfýsnum hætti. Því var slegið upp með stríðsletri og mynd af Jóni á forsíðu blaðsins að lögregla væri að rannsaka hann sem lektor. Tilgreint var sérstaklega að hann væri lektor í viðskiptafræðum sem hefði haft umsjón með MBA námi háskólans.  Eins og nærri má geta hefur þessi fréttaflutningur skaðleg áhrif á starfsheiður og æru Jóns Snorra.

Tryggvi Agnarsson, lögmaður Jóns Snorra, hefur gefið Reyni Traustasyni ritstjóra DV færi á að að bæta úr með því að draga ósannindin til baka, en hann hefur hafnað því.

Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttastjóri DV er höfundur hinna röngu ásakana um að Jón Snorri sæti lögreglurannsókn. Ingi Freyr fékk nýlega greiddar skaðabætur frá Morgunblaðinu eftir að hafa þar verið ranglega sakaður um að sæta lögreglurannsókn.  Umfjöllun Morgunblaðsins um Inga Frey var þó langt því frá að vera sett fram með jafn grófum og ósmekklegum hætti og hann sjálfur gerist sekur um í umfjöllun sinni um Jón Snorra.

Ávirðingar DV á hendur Jóni Snorra eru settar fram í tengslum við umfjöllun blaðsins um fyrirspurnir endurskoðanda þrotabús Sigurplasts um bókhaldsleg atriði. Þar kemur ekkert fram um að Jón Snorri tengist refsiverðu athæfi sem kæra megi til lögreglu.“