Fréttastofa Norður-Kóreu segir að Kim Jong-un, leiðtogi landsins, hafi fyrirskipað og stjórnað eftirlíkingu á árás á bústað forseta Suður-Kóreu. Því er hótað að bústaðnum verði breytt í eldhaf og öskustó. BBC greinir frá.

Bústaðurinn er jafnframt aðsetur framkvæmdavaldsins í Suður-Kóreu og gengur undir nafninu Bláa húsið. Forseti Suður-Kóreu, Park Geun-Hye, hefur fyrirskipað hernum að vera í viðbragðsstöðu vegna málsins. Hún sagði þó einnig í gær að ögranir Norður-Kóreumanna myndu aðeins mynda veg sjálfstortímingar fyrir stjórnvöld landsins.

Norður-Kórea hefur brugðist harkalega við nýjum þvingunaraðgerðum Sameinuðu þjóðanna eftir að landið gerði nýjar tilraunir með kjarnorku og langdrægar eldflaugar.