*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Innlent 8. desember 2019 16:18

Léleg arðsemi er engum til góðs

Bankastjóri Arion banka segir arðsemi af fyrirtækjalánum hjá bankanum óviðunandi.

Ritstjórn
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Aðsend mynd

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir í samtali við Viðskiptablaðið að lausafjárstaða bankans sé sterk og útlánagetu bankans vera enn til staðar.

„Það er hins vegar staðreynd að hluti fyrirtækjalána okkar skilar í dag óviðunandi arðsemi og þá fyrst og fremst þegar tekið er tillit til þeirra eiginfjárkvaða og skatta sem stjórnvöld leggja á fjármálafyrirtæki. Okkur er ljóst að í einhverjum tilfellum munu fyrirtæki kjósa að greiða lán sín upp í stað þess að sætta sig við hærri vexti, þetta á einna helst við um stærri fyrirtæki sem nú þegar fjármagna sig mestmegnis í gegnum erlenda markaði og skuldabréfamarkaðinn. Þannig erum við raunsæ hvað varðar þann kostnað sem fylgir okkar lánveitingum til stærri fyrirtækja landsins en við munum áfram vera milliliður og aðstoða þessi fyrirtæki við að sækja sér hagstæðustu fjármögnun á hverjum tíma. Vilji okkar til aukinnar áhættudreifingar er annar þáttur sem mun leiða til samdráttar lánasafnsins. Í því sambandi munum við horfa til þess að koma á skilvirkari sambankalánamarkaði hérlendis, hvort sem það er í samstarfi við erlenda eða innlenda banka,“ segir Benedikt.

Sjá einnig: Ógnar ný bankastefna hagvexti

„Einnig sjáum við fyrir okkur að selja frá okkur hluta lána tiltekinna viðskiptavina en þjónusta þá áfram að öðru leyti. Þannig verður það sambland af uppgreiðslum, markaðsfjármögnun og áhættudreifingu sem mun verða til þess að lánabók bankans mun dragast saman,“ segir Benedikt sem hafnar þeirri gagnrýni sem segir nýja stefnu hampa hagsmunum hluthafa á kostnað viðskiptavina bankans.

„Okkar skylda er að reka ábyrgan og arðsaman banka til hagsbóta fyrir alla haghafa; viðskiptavini, hluthafa, starfsfólk og samfélagið í heild. Banki sem er rekinn með lágri arðsemi á erfitt með að vaxa og dafna og fjárfesta í þjónustu við sína viðskiptavini. Slíkur banki gagnast ekki efnahagslífinu þegar til lengri tíma er litið. Þannig er okkar markmið nú fyrst og fremst að styrkja stöðu bankans til framtíðar og gera hann betur í stakk búinn að styðja við sína viðskiptavini og efnahagslífið í heild á sama tíma og hann skilar hluthöfum sínum ásættanlegum arði af sinni fjárfestingu,“ segir Benedikt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér