Augu umheimsins hafa enn á ný beinst að Íslandi og öllu sem íslenskt er í kjölfar góðs gengis íslenska karlalandsliðsins á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi.

Beindist athyglin mikið að veitingastað Lemon í París sem hyggst hraða opnun nýrra staða í kjölfarið. Lemon er  eini íslenski veitingastaðurinn í Frakklandi en hann var opnaður í París fyrir minna en hálfu ári.

Skemmtileg tímasetning

„Tímasetningin var skemmtileg svona eftir á að hyggja, við sáum ekki fyrir að áhuginn á Íslandi yrði svona gríðarlegur. Hún Eva Gunnarsdóttir, eigandi Lemon í París er búin að vera í á þriðja tug viðtala við erlenda fjölmiðla, frá Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og víðar,“ segir Jón Gunnar Geirdal, einn eigenda Lemon.

Jón Gunnar er jafnframt eigandi kynningar- og markaðsfyrirtækisins Ysland og því liggur beint við að spyrja hvort ekki sé um markaðsplott að ræða. „Nei, en ef svo hefði verið værum við væntanlega að fara að taka við einhverjum verðlaunum á næstunni. En það sá þetta enginn fyrir,“ svarar Jón Gunnar.

Lengst komið á veg í Berlín og Bangkok

„En það sem þetta er búið að gera fyrir okkur er í fyrsta lagi að kviknað hefur mikill áhugi á að opna fleiri staði, bæði í Frakklandi en einnig annars staðar. Við höfum einmitt verið að líta í kringum okkur, bæði í Þýskalandi og Bretlandi, bara við sjálfir með aðilum á staðnum, en þetta hefur gert það fyrir okkur að við verðum að setja þetta í fimmta gír og rúmlega það,“ segir Jón Gunnar.

Hann nefnir einnig áhuga í Noregi, Svíþjóð, Bandaríkjunum og meira segja alla leið frá Asíu. „Íslendingar í Bangkok hafa mikinn áhuga á að opna í Taílandi og jafnvel víðar þar í kring. Þetta er í raun lengst komið í Berlín og Bangkok svo einkennilega og það hljómar.

Langt í frá sömu vörur vinsælastar

Jón Gunnar Geirdal segir að djús og samlokumenningin sé komin stutt á veg í Frakklandi:

„Það kom okkur skemmtilega á óvart við að opna fyrst í París, í þessari mikla sælkeraborg. Það eru aðrir djússtaðir, en ekkert í líkingu við Lemon, þannig að viðtökurnar hafa verið frábærar. Þó að þetta sé sama Lemon og hérna heima, þá eru samt svona ákveðin frönsk sérkenni, við viljum geta aðlagað okkur að hverjum markaði fyrir sig, með einhverjum sérkennum. Það er til dæmis meira bakkelsi í boði í Frakklandi, enda Frakkinn bakkelsissjúkur,“ segir Jón Gunnar og heldur áfram:

„Við erum líka að sjá að það sem er vinsælast í Reykjavík er langt frá því að vera vinsælast í París.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .