Nýjasti veitingastaður Lemon verður staðsettur á Glerárgötu 32 á Akureyri, en það eru hjónin Jóhann Stefánsson og Katrín Ósk Ómarsdóttir sem eiga þennan Lemon sérleyfisstað.

Áætlað er að hann opni í byrjun maí og verður hann þá fjórði Lemon staðurinn sem opnar hér á landi.

„Frá opnun fyrsta Lemon staðarins á Suðurlandsbraut 4 í Reykjavík hefur rignt yfir okkur fyrirspurnum um að opna í höfuðstað Norðurlands,“ er haft eftir Jón Gunnar Geirdal stofnanda Lemon í fréttatilkynningu.

„að er með mikilli ánægju og stolti sem við tilkynnum komu Lemon til Akureyrar - loksins!“

Það er eignarhaldsfélagið Brúnir sem á húsnæðið á Glerárgötu 32 sem er 220 fermetrar að stærð og reiknað er með að staðurinn taki 55 manns í sæti. Nú þegar er hafin vinna við endurbætur á plássinu en bæði verður hægt að ganga inn á staðinn að framan og aftan.

Það eru þrír Lemon staðir á höfuðborgarsvæðinu - Suðurlandsbraut 4, Laugavegi 56 og Hjallahrauni 13, Hafnarfirði, en auk þess er sérleyfisstaður í París í öðru hverfi 43, Rue des Petits Carreaux.