Sending.is, stofnað vorið 2020, hefur skapað sér sess á íslenskum flutningamarkaði og sinnir í dag vöruflutningum fyrir yfir 300 verslanir. Ómar Sigurðsson, stofnandi Sendingar, segir að það hafi ekki staðið til að hefja rekstur á þessu sviði en í byrjun Covid-faraldursins breyttist landslagið á markaðnum.

„Sending er stofnað í kringum nafnið. Ég hef verið að kaupa og selja lén í gegnum tíðina. Árið 2018 keypti ég Sending.is á uppboði ásamt Sendingar.is og eignaðist því í raun vörumerkið. Á þessum tíma hafði ég ekkert ákveðið hvað ég ætlaði að gera við þetta“ segir Ómar.

Upphaflega hugmyndin hans var að setja upp viðbót fyrir vefsíður til að sækja ódýrustu sendingarmöguleika frá öllum fyrirtækjum á markaðnum. Snemma í faraldrinum byrjaði Facebook-aðgangur Sendingar að fá fjölda skilaboða frá fólki í leit að heimsendingum. Eins og þekkt er stórjókst eftirspurn eftir heimsendingum og vöruflutningum á þessum tíma en Ómar segir að stór sendingarfyrirtæki hafi ekki náð að anna henni að fullu. „Þar af leiðandi opnaðist gátt fyrir aðra á markaðnum og við ákváðum að stökkva á tækifærið.“

Sending.is býður fyrirtækjum að úthýsa sendingum og í dag eru yfir 300 verslanir í viðskiptum við fyrirtækið. Í desembermánuði sá Sending um yfir 14 þúsund sendingar sem er 42% aukning frá desember 2020. Ómar segir að Sending sé nú að koma fram með nýja þjónustu líkt og 90 mínútna hraðsendingar á höfuðborgarsvæðinu og stefnir á  heimsendingar á mat. Þá byrjaði fyrirtækið nýverið með þjónustuna Sótt og sent þar sem neytendur bóka sendingar beint í gegnum Sending.is án þess að verslanirnar sjálfar séu milliliðir í viðskiptunum. Sending sér þá um að sækja vörurnar og flytja þær heim til viðskiptavina.

Keypt af flutningaþjónustu á Selfossi

Í árslok 2020 tók flutningaþjónustan Siggaferðir yfir rekstur Sendingar og verið er að undirbúa að samtvinna starfsemi fyrirtækjanna. Ómar, sem starfar í dag hjá Siggaferðum, segir að sameiningin henti báðum aðilum vel.

„Við urðum fyrir ákveðnum vaxtarverkjum en á tímabili gátum við ekki annað öllum símtölum eða tölvupóstum sem hrönnuðust upp. Þar koma Siggaferðir stórar inn því þær voru þegar með skrifstofu. Þá vantaði einnig hugbúnaðarkerfi líkt og það sem við höfum þróað. Þjónustan verður því enn betri með þessari sameiningu.“

Verði öflugur kostur í flutningum

Siggaferðir var stofnað sem rútufyrirtæki á Selfossi árið 2011 af hjónunum Sigurði Inga Sigurðssyni og Gerði Hreiðarsdóttur. Fyrirtækið sinnti meðal annars skólaakstri í Flóahreppi til að byrja með. Í kjölfarið eignaðist það fyrirtækið Kobbaflutningar og hóf þá akstur á milli Reykjavíkur og Selfoss. Í dag eiga Siggaferðir 22 bifreiðar.

Sigurður Ingi segir að eftirspurnin hafi hliðrast til í faraldrinum þar sem eftirspurn eftir heimsendingum jókst en minna hafi verið um akstur á hótelin á Suðurlandi. Nú sé allt kapp lagt á að klára að tvinna saman rekstur Siggaferða og Sendingar. „Við ætlum að verða öflugur kostur í flutningageiranum, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga,“ segir Sigurður Ingi. Ásamt því að reka Siggaferðir hafa þau Gerður haldið úti vistheimilinu Hamarskoti í Flóahreppi frá árinu 2006.

Fjallað er um Sendingu og Siggaferðir í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .