Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að enn sé allt stopp í viðræðum félagsins við flugfreyjur. Í síðasta mánuði samþykkti hluthafafundur félagsins heimild til að hækka hlutafé þess um 30 milljarða króna. Stefndi félagið að því að ná að hnýta lausa enda fyrir upphaf þessarar viku svo að útboðið gæti farið fram í júnílok. Á mánudag barst hins vegar tilkynning til kauphallar þess efnis að þær áætlanir myndu ekki ganga eftir.

„Við þurftum að framlengja í þessu en markmiðið er enn að klára viðræðurnar, sem eru bæði flóknar og viðamiklar, við helstu aðila. Það er mikilvægt að klára öll þessi stóru mál til að skapa sem mesta vissu fyrir útboðið sem hefst þá í kjölfarið,“ segir Bogi.

Viðræður við aðkomu ríkisins hafa gengið ágætlega að sögn forstjórans og samningaviðræður við lánardrottna félagsins standi yfir. Ekkert hafi hins vegar þokast í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) síðan upp úr þeim flosnaði fyrir þremur vikum síðan. Í fyrrgreindri tilkynningu félagsins sagði að náist ekki samningar við helstu aðila muni það „þurfa að skoða aðrar leiðir til að ljúka endurskipulagningu“.

„Viðræður við FFÍ hafa ekkert þokast og það er mjög langt á milli, sem er mjög miður. Þar verður að fást lending,“ segir Bogi. Spurður um það hvaða „aðrar leiðir“ það séu sem komi til greina segir forstjórinn að hann geti ekki úttalað sig um það. „Leiðin sem við leggjum upp með núna er sú sem við teljum að sé lang farsælust fyrir starfsmenn, hluthafa, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila. Takist ekki að feta hana verður að skoða hvaða leiðir og lagalegu úrræði eru til staðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .