*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 11. júlí 2021 19:04

Ís­lendingar með milljarða­ hlut í Advania

Vænta má þess að kaupa sænskra fjárfesta á meirihluta í Advania árið 2015 hafi skilað umtalsverðri ávöxtun.

Ingvar Haraldsson
Aðsend mynd

Virði Advania hefur aukist hratt á síðustu árum samhliða örum vexti. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í vikunni var félagið metið á um 60 milljarða króna þegar Goldman Sachs keypti meirihluta í félaginu ef marka má söluandvirði eins stærsta hluthafans. 

Fjárfestahópur leiddur af sænskum fjárfestum keypti meirihluta í Advania af Framtakssjóði Íslands árin 2014 og 2015 í gegnum félagið AdvInvest. Vænta má þess að sú fjárfesting hafi skilað vænni ávöxtun. Framtakssjóður Íslands fékk um 2,5 milljarða króna fyrir söluna til AdvInvest árin 2014 og 2015 en samhliða því lögðu nýju eigendurnir Advania til um tvo milljarða íslenskra króna í nýtt hlutafé. Advania hafði þá nýlega gengið í gegnum töluverða endurskipulagningu eftir þungan rekstur árin þar á undan. Sala Framtakssjóðsins á Advania skilaði sjóðnum engu að síður um 50% ávöxtun.

Sjá einnig: Risa sala á Advania

Kaupverðið Goldman Sachs fyrr á árinu var sagt trúnaðarmál og ekki upplýst hverjir hefðu selt sig út eða nákvæmlega hvernig hluthafahópurinn yrði samsettur eftir viðskiptin. Þó var greint frá því að félag danska fjárfestingarfélagsins Via Equity yrði áfram í hluthafahópnum, sem og lykilstjórnendur félagsins og smærri hluthafar. Via Equity kom ásamt danska lífeyrissjóðnum PFA inn í hluthafahóp Advania árið 2018 við kaup á 30% hlut í félaginu.

Aechora AB, félag lykilstjórnenda Advania, sem Gestur G. Gestsson stjórnarformaður Advania, leiðir, átti 9,1% hlut í Advania um áramótin. Miðað við söluandvirði má gróflega áætla að hlutur Aechora í Advania sé um fimm milljarða króna virði.

Þá seldi fjárfestingarfélagið Bull Hill Capital, sem er að mestu í eigu Aðalsteinn Jóhannssonar, hluta bréfa sinna í Advania við kaup Goldman Sachs samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Um áramótin átti Bull Hill Capital 5,3% hlut í Advania sem má ætla að sé um þriggja milljarða króna virði. Áður hefur verið sagt frá því að Aðalsteinn átti stóran þátt í að kynna sænsku fjárfestana fyrir Advania og Framtakssjóði Íslands.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Advania Goldman Sachs