Lendingarleyfi á Heathrow flugvelli í Lundúnum eru takmörkuð auðlind og hafa flugbrautirnar þar verið fullbókaðar um árabil. Leyfin eru sjaldan boðin til sölu og er verðmæti þeirra því óljóst, en í síðustu viku seldi flugfélagið SAS hins vegar eitt af sínum leyfum og fékk 60 milljónir Bandaríkjadala fyrir. Það jafngildir um átta milljörðum íslenskra króna.

Túristi greinir frá því að vélar Icelandair fljúgi tvisvar á dag til Heathrow flugvallar og ef leyfi flugfélagsins séu á álíka eftirsóttum dagspörtum sé ljóst að virði þeirra nemi hátt í 16 milljörðum króna. Flugfélagið mun í ár fljúga á Heathrow flugvöll allt að sjö sinnum í viku.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við Túrista að ekki standi til að selja leyfin á Heathrow og færa starfsemi flugfélagsins yfir á aðra flugvelli.