Reynir Jóhannesson var í dag skipaður aðstoðarsamgönguráðherra Noregs en hann hafði áður starfað sem pólitískur ráðgjafi í sama ráðuneyti frá 2013. Hann mun aðstoða Ketil Solvik-Olsen, samgönguráðherra og varaformanni Framfaraflokksins, og mun að miklu leiti sjá um póst- og fjarskiptamál, umhverfismál og hafnir. Þessu greinir Vísir frá.

Reynir er frá Siglufirði en fluttist til Noregs ásamt fjölskyldu sinni þegar hann var átta ára. Hann flutti til Íslands til að stunda háskólanám og útskrifaðist úr stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2009. Hann er 29 ára, giftur Ástu Hrund Guðmundsdóttur, saman eiga þau son og er annað barn á leiðinni.

Að námi loknu sneri hann aftur til Noregs, þar sem hann fékk vinnu hjá þingflokki Fremskrittpartiet og hefur unnið sig þaðan upp.  Hann hefur verið tengdur flokknum fyrir, þegar hann var átján ára sat hann í bæjarstjórn í Sandefjord fyrir flokkinn.

Reynir segir í viðtali við Vísi að það velti svolítið á því hver spyr hvort hann segist vera Norðmaður eða Íslendingur. Á pappírunum er hann eingöngu Norðmaður, hann þurfti að skila inn íslenska vegabréfinu til að geta kosið í landinu þar sem hann býr.