„Mér líst náttúrulega bara mjög vel á, þetta er spennandi og krefjandi að fara yfir í nýtt hlutverk. Það eru spennandi tímar fram undan,“ segir Sigurhjörtur Sigfússon, sem verður næsti forstjóri Mannvits. Sigurhjörtur tekur við stöðunni um áramót en gegnir áfram starfi fjármálastjóra fyrirtækisins þangað til. Dr. Eyjólfur Árni Rafnsson, sem hefur verið forstjóri í tólf ár, óskaði eftir því að hætta sem forstjóri en ætlar að starfa áfram fyrir félagið. Sigurhjörtur réð sig til Mannvits árið 2012 eftir að hafa verið forstöðumaður áætlana og greininga hjá Skiptum frá árinu 2008. Þar á undan var hann sérfræðingur hjá Straumi-Burðarási, forstöðumaður fjárstýringar hjá Íslenskri erfðagreiningu og sérfræðingur á endurskoðunarsviði PricewaterhouseCoopers. Hann er löggiltur endurskoðandi og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Fylgir áhugamálum barnanna

Sigurhjörtur er mikill Garðbæingur, en þar býr hann með konu sinni og tveimur börnum, sem eru tíu og sextán ára gömul. Hann segir mestan tíma sinn utan vinnu fara í samveru með fjölskyldunni, „og vera í kringum áhugamálin hjá krökkunum“. Börnin tvö iðka íþróttir í heimabænum og eðli málsins samkvæmt hjá Stjörnunni. „Ég hef áhuga á íþróttum, sérstaklega fótbolta, og er harður stuðningsmaður Stjörnunnar.“ Sigurhjörtur segir því ekki annað hægt en að vera ánægður Stjörnumaður þessa dagana, enda liðið Íslandsmeistari kvenna og karla í fótbolta.

Nánar er greint frá í Viðskiptablaðinu frá 30. október