Bankaráð Landsbankans segir gagnrýni á launahækkanir bankastjóra skiljanlega, en kjörin séu í samræmi við starfskjarastefnu bankans um að þau skuli vera samkeppnishæf en ekki leiðandi. Laun bankastjóra hafi í mörg ár verið töluvert lægri en hjá stjórnendum sambærilegra fyrirtækja, auk þess að vera lægri en laun framkvæmdastjóra hjá bankanum sjálfum, og því hafi bankaráð lengi talið ljóst að breyta þyrfti kjörum bankastjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankaráði um málið.

Í tilkynningunni er það rakið að árið 2009 hafi kjararáði verið falið að úrskurða um launin, en þau skyldu samkvæmt eigendastefnu ríkisins „standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfaði á, án þess að vera leiðandi“. Hafi sú tilhögun verið gagnrýnd af þáverandi bankaráði, en stjórnvöld ekki gert breytingar á henni, með ofangreindum afleiðingum.

Eftir að ákvörðunin var færð frá kjararáði til bankaráðs hafi laun bankastjóra tvívegis verið hækkuð, enda ljóst að launin hafi verið lægri en laun æðstu stjórnenda hjá öðrum stórum fjármálafyrirtækjum.