Lenging Akureyrarflugvallar var formlega tekin í notkun í gær. Þá klippti Arngrímur Jóhannsson flugmaður á borða á flugbrautinni í lendingu á De Haviland Canada Beaver-flugvél sinni og var Kristján L. Möller samgönguráðherra einnig um borð í vélinni.

Það voru verktakar Ístak og Hlaðbær-Colas sem önnuðust framkvæmdir sem hófust í fyrrasumar og lauk um síðustu mánaðamót. Kostnaður við verkið er alls rúmlega 1.700 milljónir króna en auk lengingar og stækkunar öryggissvæða var tækjabúnaður endurbættur og öll flugbrautin malbikuð á ný.

Í kjölfar borðaklippingar Arngríms og Kristjáns lenti vél Flugfélags Íslands í áætlunarflugi frá Reykjavík, þota á vegum Iceland Express og fleiri vélar. Ávörp voru flutt í Flugsafni Íslands og lauk athöfninni með hópflugi norðlenskra flugvéla þar sem  Arngrímur Jóhannsson lék listir sínar á svifflugvél.