Volvo Cars hyggst bæta fæðingarorlof meðal karlkyns starfsmanna fyrirtækisins. Eftir breytinguna munu allir starfsmenn bílaframleiðandans fá greitt 24 vikna fæðingarorlof en Volvo vonast með þessu til að fjölga kvennastjórnendum og styrkja orðspor sitt meðal bílakaupenda, að því er Financial Times greinir frá.

Eins og er býður Sænski bílaframleiðandinn nýbökuðum mæðrum innan fyrirtækisins sex mánaða fæðingarorlof en lengd orlofsins meðal karla hjá fyrirtækinu fylgir svæðisbundnum löggjöfum.

Frá og með apríl munu starfsmenn sem hafa unnið hjá Volvo í heilt ár, þar á meðal starfsmenn í verksmiðjum, geta fengið fullt fæðingarorlof á 80% launum. Lengri fæðingarorlof eru algeng meðal sænskra fyrirtækja en breytingar Volvo munu einnig ná til starfsfólks í Bandaríkjunum og Kína.

Fyrirtækið prófaði þetta fyrirkomulag meðal evrópskum sölustarfsfólki á síðastliðnum tveimur árum. Niðurstaðan var sú að nýting orlofsins var jöfn meðal karla og kvenna.

„Þetta mun kosta milljónir dala, en þetta er það rétta í stöðunni og við vonum að aðrir munu fylgja okkur,“ hefur FT eftir Hakan Samuelsson, forstjóra Volvo. Hann spáir því að framtíðar kaupendur muni byggja val sitt á vörumerkjum út frá „gildum frekar en hestöflum“.

Samuelsson telur einnig að breytingarnar muni gera Volvo að eftirsóttari stað meðal kvennastjórnenda þar sem nú verði minni skömm af því að taka lengri hlé frá vinnu. Konur skipa um þriðjung æðstu stjórnendastöðum bílaframleiðandans í dag.