Ríkisstjórnin áformar að selja eftirstandandi 42,5% hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka á þessu ári og því næsta „ef markaðsaðstæður leyfa“, að því er segir í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028. Í fjármálaáætlun síðasta árs var gert ráð fyrir að sölunni lyki í ár.

Ekki er fjallað nánar um hvenær næsta sala ríkisins fari fram eða hvort beðið verði eftir niðurstöðu vegna fyrirhugaðs samruna Íslandsbanka og Kviku banka.

Ríkissjóður seldi 35% hlut í Íslandsbanka í hlutafjárútboði í júní 2021 fyrir 55,3 milljarða króna. Í mars 2022 seldi ríkissjóður 22,5% hlut í bankanum fyrir 52,7 milljarða í lokuðu útboði Bankasýslunnar.

Frekari sala ríkiseigna „vænlegur kostur“

Í fjármálaáætlun segir að mögulegt heildarsöluverðmæti Íslandsbanka, sem virðist miða við núverandi hlutabréfaverð bankans, gæti orðið um 208 milljarðar. Fjárhæðin er sett í samhengi við áætlaðan heildarkostnað við nýjan Landspítala (með 2. áfanga) sem er um 211 milljarðar.

Úr fjármálaáætlun 2024-2028.

Jafnframt segir að frekari sala eigna gæti verið „vænlegur kostur“ á síðari hluta fjármálaáætlunar og þar með yrði hægt að draga úr skuldaaukningu og fjármagnskostnaði fyrr en ella.

Í umfjöllun um áhættuþætti er snúa að fjármagnskostnaði ríkissjóðs er minnst á söluna á Íslandsbanka og uppgjör ÍL-sjóðs. Þar segir að gangi áform ríkisstjórnarinnar ekki eftir í þeim málum þyrfti önnur fjármögnun að koma í staðinn.