Skeljungur hefur ákveðið að framlengja tímafrest á óskuldbindandi tilboðum í P/F Magn, dótturfélagi sínu í Færeyjum, til 9. júní næstkomandi en upphaflega stóð til að frestinum lyki á morgun. Ástæðan fyrir framlengingunni er sögð vera aukinn áhugi fjárfesta og beiðni þeirra um lengri tímafrest, að því er kemur fram í tilkynningu Skeljungs.

Skeljungur tilkynnti í lok mars að stjórn félagsins hefði tekið ákvörðun um að meta framtíðarkosti eignarhalds á P/F Magn. Þann 19. maí óskaði félagið svo eftir óskuldbindandi tilboðum í færeyska dótturfélagið. Tekið er fram að möguleg sala yrði þó háð samþykki hluthafafundar Skeljungs eða öðrum skilyrðum.

Sjá einnig: Tap á Íslandi en hagnaður í Færeyjum

P/F Magn rekur 11 smásölu- og bensínstöðvar víðs vegar um Færeyjar auk þess að reka tvær birgðastöðvar og dreifa eldsneyti til fyrirtækja, verktaka og sjávarútvegs. Heildartekjur P/F Magn árið 2020 námu 15,6 milljörðum króna eða um 38% af heildartekjum Skeljungs í fyrra sem námu 41,2 milljörðum í króna.