Það að lengja í þessu bréfi og það á hærri vöxtum er ekkert augljóslega góður kostur, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.  Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, spurði hann út í afstöðu hans til skuldabréfs vegna Landsbankans á þingi í morgun.

Sigmundur Davíð sagði að það væri ekki endilega gott þegar einhver skuldar eitthvað sem hann getur ekki borgað að hækka vextina og láta þá standa til lengri tíma. „Þessi staða er bara til að sýna það hversu furðulegir samningar voru gerðir um þetta skuldabréf á sínum tíma,“ sagði Sigmundur  og bætti því við að það gæti ekki verið forsvaranlegt að veita undanþágu fyrir einn eða tvo tiltekna aðila.

Athygli vakti að Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með forsætisráðherra um að undanþága til handa einum aðila án þess að heildarlausn fengist væri ekki ákjósanlegur kostur.