Fjármálaeftirlitið (FME) hefur sent lífeyrissjóðum beiðni um mat á áhrifum hækkandi lífaldurs á skuldbindingar þeirra. Sigurður Valgeirsson, upplýsingafulltrúi FME, segir í samtali við Morgunblaðið að nýlega hafi verið sent dreifibréf til lífeyrissjóða í tilefni þess að Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga hafði gefið út lækkunarstuðla til framtíðar vegna væntinga um hækkandi lífaldur.

Í bréfinu voru tilmæli um að lífeyrissjóðirnir fælu tryggingarstærðfræðingum sínum að framkvæma tryggingafræðilega athugun þar sem reiknað væri með útgefnum lækkunarstuðlum til framtíðar. Þetta muni leiða í ljós hve mikið skuldbindingin eykst, bæði fyrir einstaka sjóði og lífeyriskerfið í heild.

Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur segir í samtali við Morgunblaðið að áætla megi að skuldbindingar lífeyrissjóða muni aukast um 7-15% vegna hækkandi lífaldurs. Því sé hægt að mæta með því lengja starfsaldur, lækka áunnin réttindi eða hækka iðgjöld.