Flugfélagið Singapore Airlines ætlar að hefja lengsta beina farþegaflug í heimi, á milli Singapore og New York, á nýjustu Airbus A350 flugvélum sínum. Félagið hefur áður boðið upp þessa flugleið en hætti því árið 2013. Þetta kemur fram á vef WSJ .

Samkvæmt fréttatilkynningu mun félagið hefja daglegt flug milli þessara áfangastaða 18. október á þessu ári. Áætlaður flugtími ferðarinnar mun vera 18 klukkustundir og 45 mínútur.

Sú farþegaflugferð sem er lengst í heimi þessa stundina er flug Qatar Airways milli Auckland í Nýja Sjálandi og Doha í Katar, en sú ferð tekur 18 klukkustundir og 20 mínútur.